Forvitin kýr ásamt Angus nauti

Nautin

Við ræktum íslensk naut sem við kaupum sem nokkurra daga gamla kálfa af mjólkurbændum í nágrenninu. Við erum einnig að byggja upp eigin stofn holdagripa af tegundunum Limousin og Aberdeen Angus, en þau kyn eiga uppruna sinn að rekja til Frakklands og Skotlands.

Nautin fá eingöngu hágæða fóður af túnunum og byggökrum hér heimavið. Alls erum við með um 100 hektara ræktaða og annað eins sem beitarland.

Fyrstu mánuði ævinnar eru kálfarnir á mjólk, fyrst handfóðraðir með pela en svo bjarga þeir sér sjálfir í sjálfvirkum skammtara (kálfafóstru), sem sér til þess að kálfarnir fái nóg að drekka hvenær sem er sólarhringsins. Með mjólkinni hafa þeir frjálsan aðgang að fóðurblöndu sem fullnægir orku- og steinefnaþörf þeirra auk þess sem hún hjálpar maga þeirra að þroskast til að vinna úr annarri fæðu en mjólk. Heyið er einnig alltaf til staðar þegar kálfarnir treysta sér til að byrja á því og síðan hafa nautin alltaf aðgang að gæða heyi eða fersku grasi að sumarlagi. Síðustu mánuði eldisins fá þeir kjarnfóður með heyinu, einkum heimaræktað bygg. Það er í algjöru uppáhaldi og verðum við að skammta þeim svo þeir hreinlega éti ekki yfir sig. Eins og við þekkjum sjálf þá fitnar maður af öllu góðgæti og það gera nautin líka, en hjá þeim tryggir það mýkra og fitusprengdara kjöt!

Nautin eru yfirleitt um 22 mánaða gömul þegar við látum þau frá okkur.

counter